UM OKKUR
Um sendiherra
Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á vefsíðu sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi.
Ávarp sendiherra
Kæri gestur,
Evrópusambandið og Ísland eiga í djúpstæðu, vingjarnlegu og víðfeðmu sambandi. Þetta samband byggist á sameiginlegum gildum og nánum samskiptum íbúa okkar. Helsta undirstaða þessa sambands er hinn einstaki og árangursríki samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem tók gildi árið 1995 og fagnaði þrjátíu ára afmæli sínu vorið 2024. Aðildar að EES-samningnum eru ESB annars vegar og Ísland, Noregur og Liechtenstein hins vegar.
Samningurinn endurspeglar skuldbindingu okkar til náins langtímasamstarfs, en sveigjanlegt eðli samningsins gerir okkur kleift að styrkja, framþróa og aðlaga samstarfið okkar að nýjum tækifærum og áskorunum. Það er óhætt að segja að EES-samningurinn er eitt víðtækasta og nánasta samstarfsfyrirkomulag sem Evrópusambandið heldur úti við nokkurn annan samstarfsaðila í heiminum.
Evrópska efnahagssvæðið sameinar aðildarríki Evrópusambandsins, Ísland, Noreg og Liechtenstein á sameigineglum markaði sem byggist á fjórfrelsinu, þ.e.a.s frjálsum vöruflutningum, frjálsri þjónustustarfsemi, frjálsum fjármagnshreyfingum og frjálsri för launafólks milli Evrópusambandsins, Íslands, Noregs og Liechtenstein. Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu greiðir fyrir frjálsri för fólks Schengen-ríkja án persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkja. Þetta er bæði Íslendingum og öðrum Evrópubúum til mikilla hagsbóta, enda eru Evrópureisur og Íslandsheimsóknir á óskalistum margra!
En EES-samstarfið snýst um svo margt fleira en bara fjórfrelsið, t.a.m náið samstarf okkar þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun, menntamálum, þróunar- og uppbyggingarmálum, félagslegri stefnumótun, neytendavernd, almannavörnum, menningu og list, viðskiptum og ferðamálum. Á hverjum degi verð ég vör við ný spennandi rannsóknar- og nýsköpunarverkefni og samstarfsverkefni milli fyrirtækja eða menningarstofnana. En það ætti ekki að koma á óvart í ljósi þess að samstarfsáætlanir ESB hafa veitt íslenskum stofnunum, fyrirtækjum, vísindafólki, listafólki, kennurum og nemendum yfir 80 milljarða íslenskra króna í styrki til evrópskra samstarfsverkefna á þessum sviðum sem hafa skilað íslensku samfélagi, sömuleiðis okkur ESB-búum, gríðarlegum efnahagslegum og samfélagslegum verðmætum. Það sem mér þykir einna mest gefandi í starfi mínu sem sendiherra er að verða vitni að raunverulegum árangri samstarfs okkar allra og kynnast því frábæra fólki sem gerir þetta að veruleika um land allt.
Frá því að samningurinn var undirritaður á tíunda áratugnum hafa fleiri en 10% íbúa á Íslandi, um 40,000 manns, notið góðs af styrkjum úr Erasmus-áætluninni til þess að kenna, stunda nám og rannsóknir, sækja námskeið eða styrkja tengsl milli menntastofnana. Þar að auki eiga fleiri en 57,000 manns frá ESB-ríkjum heima á Íslandi, sem samsvarar um 13% íbúa á Íslandi. Þessar tölur einar og sér sýna hversu náið og mikilvægt samband Íslands og Evrópusambandsins er.
Ísland er einnig mikilvægur samstarfsaðili Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi. Við erum iðulega sammála um mikilvæg utanríkismál og tökum þátt í alþjóðlegum þróunar- og mannúðarstörfum. Við eigum einnig sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að byggja upp og viðhalda sterku marghliða alþjóðasamstarfi sem í stakk búið að takast á við áskoranir samtímans. Sömuleiðis er það sameiginlegur vilji Evrópusambandsins og Íslands að takast á við loftslagsbreytingar, að vernda norðurslóðir, að standa vörð um mannréttindi og jafnrétti kynjanna, svo eitthvað sé nefnt.
Starfsfólk sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi einsetur sér að viðhalda þessu farsæla sambandi okkar. Við viljum hlusta á skoðanir Íslendinga og veita nýjar og réttar upplýsingar um Evrópusambandið og stefnumál þess. Það er mín von að fólk hafi gagn af þessari vefsíðu og finni þær upplýsingar sem það leitar að. Ég hvet þig til þess að fylgja okkur á Facebook, Instagram, X (Twitter), Linkedin eða Threads.
Við hlökkum til að heyra frá ykkur.
Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi.