Orkumálastjóri ESB, Kadri Simson, heimsótti Ísland og sótti Hringborð norðurslóða
Harpa iðaði af lífi þegar þing Hringborðs norðurslóða (Arctic Circle Assembly) var haldið í ellefta skiptið í Reykjavík dagana 17. - 20. október 2024. Kadri Simson, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins yfir orkumálum, ferðaðist til Íslands til að taka þátt á þinginu. Simson flutti ræðu á opnunarviðburði þingsins ásamt öðrum háttsettum gestum víðsvegar að úr heiminum.
Í opnunarræðu sinni lagði Simson áherslu á stöðu orkumála innan Evrópusambandsins og tækifæri sem felast í nýtingu endurnýjanlegrar orku á norðurslóðum, en uppbygging endurnýjanlegra orkugjafa gæti stuðlað að auknu orkuöryggi og stutt við sjálfbæra þróun á svæðinu.
Orkuöryggi Evrópu er beintengt heilsu norðurslóða. Með því að vernda þetta mikilvæga svæði, styðja við uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa og sanngjörn orkuskipti þá tryggjum við betri framtíð fyrir okkur öll. - Kadri Simson á Hringborði norðurslóða.
European Union, 2024
Á meðan heimsókninni stóð, hitti Kadri Simson forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, á Bessastöðum, þar sem ræddar voru aðgerðir til að berjast gegn loftslagsbreytingum, mikilvægi jarðvarma, og ástandið í Úkraínu eftir innrás Rússlands. Sendiherra Evrópusambandsins, Clara Ganslandt, og varaskrifstofustjóri orkumálastjórans, Peeter Kadarik, voru einnig viðstödd á fundinum. Kadri Simson fundaði einnig með forsætisráðherra Íslands, Bjarna Benediktssyni, þar sem orkustefnur Íslands og Evrópusambandsins voru ræddar auk aðgerða til grænna orkuskipta og málefna er varða Evrópska efnahagssvæðið. Kadri Simson lagði áherslu á þá staðreynd að Ísland er meðal nánustu samstarfsríkja Evrópusambandsins. Samband Íslands og Evrópusambandsins byggir á sameiginlegum gildum og afar árangursríku EES-samstarfi síðastliðna þrjá áratugi. Þar að auki hitti Kardi Simson umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra Íslands, Guðlaug Þór Þórðarson, en þau ræddu mikilvægi jarðvarma og jarðvarmavirkjana, grænar tæknilausnir, og aukið samstarf milli Íslands og ESB á sviði orkumála.
Á þingi Hringborðs norðurslóða átti Kadri Simson samtal við sérstakan erindreka Kína í loftslagsmálum, Liu Zhenmin þar sem þau ræddu COP29 umhverfisráðstefnuna sem haldin verður í Bakú, Aserbaídsjan, og mikilvægi þess að standa við og fylgja eftir fyrri loforðum á alþjóðavísu hvað umhverfis- og loftslagsmál varða. Kadri Simson heimsótti síðan Hellisheiðarvirkjun í boði Carbfix og fékk kynningu á nýtingu jarðvarma sem og kynningu á kolefnisbindingu, en Carbfix er leiðandi nýsköpunarfyrirtæki í kolefnisbindingu.
Fjölmargir fulltrúar Evrópusambandsins sóttu Hringborð norðurslóða og fluttu fyrirlestra og tóku þátt í umræðum:
Sérstakur erindreki Evrópusambandsins í norðurslóðamálum, Claude Véron-Réville, fjallaði um norðurslóðastefnu ESB í pallborðsumræðum sem bar heitið “The European Union and the World in 2024: New Input for the EU’s Arctic Policy” sem og um vísinda- og rannsóknarsamstarf í málstofu sem bar titilinn “Science Collaboration and Security Dynamics in the Arctic Region”.
Elisabeth Hamdouch-Fuehrer, varadeildastjóri deildar jarðvöktunar hjá stjórnarskrifstofu Evrópusambandsins yfir varnar-, iðnaðar- og geimmálum, kynnti mikilvægi geimáætlanna Copernicus og Galileo fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurslóðir og loftslagsbreytingar, undir heitinu “EU Space Programme: Copernicus – An Evolving Earth Observation System for Polar Monitoring”.
Hamdouch-Fuehrer og Raphael Goulet, deildarstjóri hafstjórnar, hafréttar og norðurslóðamála við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, tóku einnig þátt í umræðum “The EU and Innovation for Sustainable development in the Arctic”. Goulet tók að auki þátt í umræðu um samstarf ungs fólks á norðurslóðum.