Bókmenntaverðlaun ESB og Evrópustyrkir kynnt á Bókamessunni í Hörpu
Sendinefnd Evrópusambandsins tók þátt í fyrsta skiptið í árlegu Bókamessunni sem haldin var í Hörpu að þessu sinni. Bókamessan er haldin af Félagi íslenskra bókaútgefenda í samstarfi við Reykjavíkurborg (Unesco bókmenntaborg síðan árið 2011).
Á bási sendinefndar Evrópusambandsins upplýstu starfsmenn gesti og gangandi um Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins (EUPL) sem hafa verið afhent árlega frá árinu 2009. Fjöldi íslenskra höfunda hafa hlotið sérstakar viðurkenningar eða hreppt sjálf verðlaunin á undanförnum árum. Sendinefnding veitti einnig upplýsingar um styrki Evrópusambandsins til íslenskra skapandi greina sem Íslendingar hafa aðgang að í gegnum þátttöku Íslands í Creative Europe menningaráætlun ESB.
Mörg hundruð manns mættu á Bókamessuna í Hörpu en hún hefur verið haldin árlega frá árinu 2011. Standur sendinefndarinnar vakti mikla lukku þar sem gestum gafst kostur að taka eintök af bókinni "Evrópskar sögur" (e. European Stories) sem gefin er út af Bókmenntaverðlaunum ESB. Bókin inniheldur sérvalda kafla úr þrettán bókum frá þrettán löndum sem tilnefndar voru til bókmenntaverðlaunanna í ár.
Eftir fyrsta dag Bókamessunnar bauð sendinefndin í fögnuð í tilefni dags íslenskrar tungu og upphaf Jólabókaflóðsins.
Í ræðu sinni sagði sendiherra Evrópusambandsins, Clara Ganslandt:
Evrópskt menningarsamstarf skiptir sérstaklega miklu máli þar sem Evrópa samanstendur af mörgum stórum og litlum ríkjum, hvert með sína eigin menningu og tungumál. Þess vegna leggur Evrópusambandið mikla áherslu á að styðja við lista- og menningarsamstarf þvert á landamæri og skil á milli mismunandi tungumála, og til þess að auka efnahagsleg tækifæri og efla samkeppnishæfni evrópskra skapandi greina. - Clara Ganslandt, sendiherra ESB á Íslandi.
Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, tók þátt í viðburðinum og hélt ræðu þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi menningar og menningarsamstarfs sem sameiningarafl í samfélaginu sem gæðir hversdagsleikanum lífi og lit með list, tónlist og máli. Þar að auki fjallaði ráðherra um mikilvægi EES-samstarfsins fyrir íslenskar skapandi greinar, enda styrkir samstarfið tengls íbúa og listafólks á Íslandi og í ESB-ríkjum.
Samstarf Íslands og Evrópusambandsins í menningarmálum á grundvelli EES-samningsins hefur verið farsælt. Íslenskar bókmenntir hafa átt góðu gengi að fagna á meginlandi Evrópu og við viljum sjá enn fleiri íslensk verk þýdd á fleiri tungumálum. Ég er stolt af þeim árangri sem rithöfundar okkar og forlögin hafa náð.
- Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Menningar- og viðskiptaráðherra.