Arion semur við EIF um lánaábyrgðir - allt að 15 milljarðar í ný lán til smárra og meðalstórra fyrirtækja
Evrópski fjárfestingasjóðurinn (EIF) og Arion banki hafa undirritað ábyrgðarsamning með það að markmiði að styðja við frumkvöðla hér á landi. Ábyrgð frá EIF, sem er studd af InvestEU áætlun Evrópusambandsins, gerir Arion banka kleift að lána allt að 15 milljarða króna til íslenskra fyrirtækja á hagstæðari kjörum en ella. Stuðningi InvestEU er ætlað að styðja við þrjú ólík svið hér á landi: Fjárfestingar á sviði sjálfbærni, lánveitingar til nýsköpunar og stafvæðingar og menningu og skapandi greinar.
Við undirritun samningsins í Reykjavik tók Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka til máls:
“Það er einstaklega ánægjulegt að endurvekja samstarf okkar við Evrópska fjárfestingasjóðinn. Samstarf okkar fyrir um átta árum var grunnurinn að stuðningi Arion við fjölmörg nýsköpunarverkefni t.a.m. á sviði fiskeldis, gagnavera, umhverfisvænna orkugjafa og húðvara. Nú nær samstarfið til enn fleiri sviða með áherslu á nýsköpun og stafvæðingu samfélagsins, menningu og skapandi greinar og sjálfbærni- og umhverfismál. Samstarf okkar og fjárfestingarsjóðsins er mikilvægt og auðveldar okkur að lána til verkefna á þessum sviðum. Það gerir okkur kleift að fjármagna verkefni sem eru komin skemmra á veg en ella og á hagstæðari kjörum, uppfylli þau skilyrði samningsins.” - Benedikt Gíslason, CEO, Arion Banki
Þegar kemur að fjárfestingum á sviði sjálfbærni þá gerir ábyrgð frá Evrópska fjárfestingasjóðnum Arion kleift að styðja enn frekar við grænar fjárfestingar sem stuðla að umhverfisvænna efnahagslífi og fjárfestingar sem stuðla að inngildingu. Sá hluti ábyrgðanna sem er ætlaður til stuðnings við nýsköpun og stafvæðingu mun auka aðgengi smárra og meðalstórra fyrirtækja, sem leggja stund á fjárfrekar rannsóknir, að fjármagni og stuðla almennt að stafvæðingu fyrirtækja hér á landi. Síðast en ekki síst gerir samningurinn Arion kleift að auka aðgengi kvikmyndageirans hér á landi, sem hefur eflst verulega undanfarin ár, og tengdra greina að lánsfjármagni og þannig stuðla að frekari styrkingu þeirra og aukinni hæfni til að takast á við þær áskoranir sem fram undan eru.
„Þetta er annað verkefnið sem við komum að á Íslandi eftir að landið gerðist aðili að InvestEU áætluninni og við sjáum fram á að það muni hafa veruleg áhrif,“ sagði forstjóri EIF, Marjut Falkstedt, við undirritunina. „Við unnum fyrst með Arion fyrir um áratug og það er ánægjulegt að geta nýtt áfram styrkleika bankans við að hrinda meginmarkmiði okkar í framkvæmd; að fjármagna þau smáu og meðalstóru fyrirtæki sem mest þurfa á fjármagni að halda. Við erum hluti af Evrópsku fjárfestingarbankasamstæðunni og standa loftlagsmál og sjálfbærni okkur – eins og Arion banka – nærri. Að auki, þá gleður það okkur að saman munum við beina sjónum okkar sérstaklega að íslenskum fyrirtækjum sem starfa á sviði nýsköpunar og stafvæðingar og menningar og skapandi lista.“
Á sviði sjálfbærni mun Arion banki horfa til fjármögnunar fjölbreyttra verkefna eins og sjálfbærs landbúnaðar, endurnýjanlegra orkugjafa, skilvirkrar orkunýtingar, hreinna samgangna og mengunarvarna og fráveitustýringar. Þegar kemur að ábyrgðum á sviði stafvæðingar þá er gert ráð fyrir að fyrst og fremst verði um að ræða lánveitingar til fyrirtækja í örum vexti og nýsköpunar þegar kemur að ferla- og vöruþróun á sviði fiskveiða og -eldis, raunvísinda og verkfræði og líftækni.
Sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi Clara Ganslandt tók einnig til máls við undirritunina:
„Í um þrjá áratugi hafa íslensk fyrirtæki, háskólar og rannsóknar- og menningarstofnanir tekið þátt í ýmsum áætlunum Evrópusambandsins. Þau hafa náð góðum árangri og eru mikils metin af alþjóðlegum samstarfsaðilum sínum. Ég hlakka til að fylgjast með hvernig ábyrgðarsamningur EIF og Arion banka sem undirritaður var hér í dag mun hjálpa smáum og meðalstórum á Íslandi sem starfa á sviði umhverfismála, tækni og menningar.“ - Sendiherra ESB, Clara Ganslandt
Ábyrgðarsamningurinn nú er annar ábyrgðarsamningurinn sem Arion banki og EIF gera. Sá fyrri var gerður árið 2016 og var hluti af InnovFin ábyrgðum til smárra og meðalstórra fyrirtækja. Áhersla var á stuðning við nýsköpun lítilla fyrirtækja í formi lánveitinga sem námu alls rúmlega 16 milljörðum króna.
Bakgrunnsupplýsingar:
Evrópski fjárfestingasjóðurinn (EIF) er hluti af Evrópsku fjárfestingarbankasamstæðunni. Meginhlutverk sjóðsins er að styðja smá og meðalstór fyrirtæki með því að hjálpa þeim að afla fjármagns. EIF leggur áherslu á að þróa leiðir til að styðja við vöxt og áhættusamar fjárfestingar þessara fyrirtækja í gegnum fjármögnun og ábyrgðir. EIF styður við markmið Evrópusambandsins í þágu nýsköpunar, rannsókna og þróunar, frumkvöðlastarfsemi, vaxtar og atvinnu. Allt frá sínu fyrsta verkefni, sem var árið 1974 í Noregi, hefur Evrópska fjárfestingarbankasamstæðan lagt til yfir 6 milljarða evra til stuðnings verkefna á EFTA svæðinu; 5 milljarða í gegnum Evrópska fjárfestingarbankann (EIB) og um 1,1 milljarð evra í gegnum EIF. Þar af hefur samstæðan lagt til um 1,2 milljarða evra, eða um 184 milljarða króna, til verkefna á Íslandi í gegnum fjármögnun frá EIB og EIF.
InvestEU áætlunin leggur Evrópusambandinu til mikilvæga langtímafjármögnun með það að markmiði að styðja við sjálfbærni efnahagslífs og nýtir til þess umsvifamikla sjóði sem ýmist eru í opinberri eigu eða einkaeigu. Áætlunin stuðlar að aukinni fjárfestingu í samræmi við stefnuáherslur Evrópusambandsins eins og Græna samkomulag Evrópu, stafvæðingu og stuðning við smá og meðalstór fyrirtæki. Allir gerðir fjármálagjörninga sem Evrópusambandið býður upp á eru í boði undir einum og sama hattinum hjá InvestEU, sem einfaldar verkefnafjármögnun innan Evrópu; gerir hana skilvirkari og sveigjanlegri. InvestEU áætlunin samanstendur af þremur meginstoðum: InvestEU-sjóðnum, Evrópusetri fyrir fjárfestingarráðgjöf og Evrópugátt fyrir fjárfestingarverkefni. InvestEU-sjóðurinn reiðir sig á samstarfsaðila á sviði fjármála sem fjárfesta í verkefnum með því að nýta hluta af 26,2 milljarða evra ábyrgðarheimild Evrópusambandsins. Ábyrgðin auðveldar þeim að taka áhættu í sínum fjárfestingum og eykur fjárfestingargetu um að minnsta kosti 372 milljarða evra.
CONTACT DETAILS
Nánari upplýsingar veita:
EIB Group: Tim Smit | +352 691 286 423 | [email protected]
Arion banki: Haraldur Guðni Eiðsson | +354 856 7108 | [email protected]
Evrópusambandið: Ignazio Cocchiere | +32 2 29 82261 | [email protected]
Sendinefnd Evrópusambandsins á Ísland: Viktor V. Stefánsson | +354 864 3386 | [email protected]