This isn't an official website of the European Union

Ávarp Sendiherra Lucie Samcová-Hall Allen fyrir Hinsegin Daga

Hinsegin dagar hefjast á ný! – og aftur hlotnast okkur hjá Sendinefnd ESB á Íslandi sá heiður að vera hluti af Hinsegin dögum.

 

Á hverju ári veita Hinsegin dagar okkur öllum tækifæri til þess að staldra við og hugsa um þær miklu framfarir sem náðst hafa í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks. Evrópusambandið er stolt af því að sjá Íslendinga í fararbroddi alþjóðlega í réttindabaráttu þessari eins og endurspeglast t.d í því að Ísland er nú í fimmta sæti á regnbogakorti ILGA-Europe 2023!

Nú þegar við fögnum fjölbreytileika samfélagsins er mikilvægt að muna að Gleðigangan er í grunninn kröfuganga fyrir jafnrétti, frelsi og viðurkenningu. Hinsegin fólk stendur enn frammi fyrir mörgum takmörkunum á heimsvísu og í mörgum löndum er staða þeirra mikið áhyggjuefni.

Í mörg ár hefur ESB lagt sig fram við að stuðla að auknum réttindum hinsegin fólks um heim allan og ESB er meðal helstu styrktaraðila í heiminum til hagsmunaafla hinsegin fólks og mannréttindasamtaka.

ESB reynir alltaf að sýna gott fordæmi og Samandið viðurkennir að það eru alltaf tækifæri til frekari framfara á heimavelli. Þess vegna samþykkti ESB sína fyrstu LGBTQI+ jafnréttisstefnu árið 2020 með það að markmiði að byggja upp Jafnréttissamband (e. Union of Equality), þar sem við styrkjum stofnanir okkar og stefnur til að takast á við ójöfnuðinn og áskoranirnar sem hinsegin fólk stendur enn frammi fyrir. Með jafnréttisstefnunni skuldbindur ESB sig til þess að berjast gegn og koma í veg fyrir hvers kyns mismunun, útilokun og ofbeldi gegn hinsegin fólki. Árið 2023 samþykkti Evrópska utanríkisþjónustan sína fyrstu aðgerðaráætlun um fjölbreytni og inngildingu sem miðar að því að styðja og auka pólitískan sýnileika mannréttindabaráttufólks. Sú áætlun tryggir einnig að ESB aðlagi mannúðar- og verndaraðstoð sína að þörfum mismunandi fólks, þar á meðal hinsegin einstaklinga.

Baráttunni fyrir raunverulegu jafnrétti lýkur aldrei, en Sendinefnd ESB á Íslandi hlakkar til áframhaldandi náins samstarfs við Ísland til að taka á þessum málum og að taka þátt í að fagna ástinni og fjölbreytileikanum öllum á Hinsegin dögum!